Tattú

Ég heyrði útundan mér á einhverri útvarpsstöðinni í dag að tattú væri farið að aukast til muna hér á landi.  Nú eru menn farnir að flúra sig allan eða stóra mynd á baki sér.  Ég ráðlegg öllum þeim sem vilja kenna sig við Krist á láta þetta alfarið eiga sig enda stendur í ritningunni í 3. Mósebók 19:28 þetta:

"Og þér skuluð eigi skera skurði í hold yðar fyrir sakir dauðs manns, né heldur gjöra hörundsflúr á yður. Ég er Drottinn."

 Og þar sem öll Ritningin er nytsöm til fræðslu og leiðréttingar vil ég áminna þetta.

 

            með shalom kveðju,


Í myrkrinu vöxum við

Eins og blómin og jurtirnar sem breyta andardrættinum úr ljóstillífuninni í sólinni en í myrkri í að anda eins og spendýr gera með koldíoxíð í útöndun og súrefni í innöndun.  Vinna úr sterkjunni og vaxa næturlangt fyrst niður á við með ræturnar síðan uppá við með stilkinn, blöðin og blómin.  Þannig vex  trúaður maður andlega á líkan hátt.  Fyrst breiðum við út vangan til Guðs og lofum hann og tignum eins og blómin sem breiða út blöðin til ljóstillífunar og þannig klæðumst við alvæpni Guðs. Við lærum að vaxa frá því að vera nýfædd í Guði í að vera staðfastir stólpar Guðs. Við þurfum að vera nákvæm svo að það sjáist berlega eða beri á trú Krists. Að hægt verði að sjá Jesú í þér.  Allt hefst þetta með staðfastri bæn og beiðni auk staðfestum lestri í Ritningunni, Orði Guðs.  Drottinn sér svo um vöxtinn.

 

Shalom kveðja,  Hörður.


Minn Vitnisburður

 

Jæja, nú er komið aðskrá vitnisburðinn sinn, vá eftir 22 ár. Er maður ekki í lagi! Ekki það að ég hafi ekki gefið ókeypis fagnaðarboðskapinn eins og mér var gefin hann ókeypis heldur er það loksins orðið dýrmætt að koma því niður á blað hvernig ég frelsaðist.  Alltaf gaman að því að segja sögu.  Ég var 25 ára þegar ég varð fyrir þeirri dýrmætu reynslu að taka á móti frelsara mínum, Drottni Jesúm Kristi.  Sem krakki fór ég alltaf í kirkju uppáklæddur af mömmu minni sem var í kór Langholtskirkju til margra ára.  Það er eitt að syngja í kór kristilega sálma og allt annað að fá opinberun á því að Jesús er lifandi og vill koma inn í líf þitt og gefa þér nýja lausn og óumræðanlega gleði sem aðeins Guð einn getur gefið.  Ég frelsaðist ekki eins og litli bróðir hann Trausti sem kastaðist aftur á bak og sá bara ljós og dýrð Guðs en ég frelsaðist þannig að ég vaknaði upp eins og gormur sem slitniði í rúminu, algjörlega vaknaður úr svefni næturinnar eins og ég hefði verið vakandi allan daginn og frelsaðist.  Ég þekkti þá engar nútíma kirkjur eða frelsi sem slíkt. Þetta var bara gerðist þannig að H.A. (Heilagur Andi) kláraði verkið sem þegar var hafið í mér til þess að gera málið einfalt.  Ég var steinsofandi og það var eitthvað sem þrýsti á lærið á mér fastar og fastar þangað til að ég reis upp í rúmið sitjandi og tók á móti Guði í hjartað mitt.  Ekki á tunguna því það kom síðar. Þetta var árið 1986.  Þetta er ofur einfalt.  Það sem dregur mann að Guði er frá Guði komið, svo að það sem vakti mig var frá Guði komið í Jesú Nafni.

  Ég skal alveg viðurkenna það að áður en þetta gerðist var sumarlangur aðdragandi.  Það var gróska og vakningar þessi ár og margir komust til lifandi trúar.  Ég var einn af þeim, þó svo að ég var ekki nýrakaður eftir ræsið eða ný upptjaslaður eftir dópneyslu og ekki heldur að kaupa mér 2 milljarða einbýlishús í London eftir skjótfengin gróða.  Ég var að ná mér í 40 punkta í líffræðiskor frá fylkisháskóla í Noregi og einmitt þá stund sem ég frelsaðist átti ég að mæta á flugvöllinn vegna skólans eldsnemma morguns um sjö leitið.  Ég tók með mér testamentið sem ég ávallt hafði með mér í brjóstvasanum þetta sumar og ég verð að segja það að mér fannst textinn dansa gleðidans þegar ég las í flugvélinni.  Allt var svo ýkt.  Gleðin var svo mikil.

  Ég tók nú síðara árið í Aquaculture frá fylkisháskólanum í Sogndal en námið var fyrirhugað til þess að starfa við fiskeldisstöðvar á Íslandi eða Noregi. Þetta var planið.  Ég var búinn að fá mig fullsaddan að vera í Vestmannaeyjum við að raga og afhausa þorsk.  Nú átti að taka þetta fræðimannlega og stunda lifandi fiskframleiðslu í körum eins nákvæmlega og væri ég að framleiða góðan bjór í ámum.

En aftur tilsögunnar.  Stúdentavinirnir tóku breytingum og ég þrengdi mig inní lítinn kristinn stúdentahóp og það var ágætt en það var ekki fyrr en ég kom aftur til Íslands að ég tók ákvörðun um að velja mér kristið samfélag.

  Krossinn var fyrir valinu og sá fyrsti sem ég hitti var Gunnar í Krossinum.  Hann leit á skóna mína og spurði mig hvort ég gengi á fjöll.  Ég var í fjallgönguskóm og síðar smitaði ég forstöðumanninn af fjallgöngu.  Núna stundar hann sjóinn og vonandi líka stígur hann fjallið sér til heilsu bótar.

En á samkomu þar játaði ég í fyrsta sinn með munni mínum og fór með frelsisbænina og tók við honum með tungu minni  í vottaviðurvist.  Nú var ég formlega orðin kristinn, fyrst  í hjarta og síðar með tungu minni.  Þetta var búið að taka næstum tvö ár að gefa sig á þennan hátt.

  Áður en allt þetta gerðist þyrsti ég eftir því að Guð opinberaði sig sem persónulegan Guð fyrir mér en ekki eitthvert ópersónulegt æðra vit sem gengur bara eins og klukka eftir elementum efnahvarfa og vistkerfa.  Ég þurfti að gefa upp Darwin kenninguna og það var erfitt þar sem að ég hafði þó nokkra menntun í líffræði.  Bróðir minn var frelsaður og þvílíkar breytingar á einum manni gerði mig hungraðan eftir spurningum um Guð.  Það var kröftugt trúboð á götum úti, niður í miðbæ Reykjavíkur þetta sumar og þá voru menn standandi upp á kössum á Lækjartorgi og boðuðu trú til allra sem áttu leið hjá.  Þannig talaði Halldór Lárusson til mín upp á kassa.  Svo var þetta lag eftir Hjalta Gunnlaugsson.  "Sannleikurinn", sem heyrðist mikið um þessar mundir.  Allt var þetta umrótið.

  Nú ætla ég að færa sögusviðið aftur til baka og deila með ykkur kvöldið áður en ég tek á móti Jesú.  Það nefnilega var jú ákveðinn aðdragandi að þessari reynslu minni og hún var sú að ég fór niður á torg.

Við Austurstræti 3 var lítill hópur "Ungs fólks með hlutverk" frá Noregi.  Ég stoppaði til þess að hlusta á þau spila og syngja.  Sum þeirra gengu um og töluðu við fólk og  vitnuðu í Jóhannesarguðspjall.  Einn drengur sem ég man ekki lengur hvað hét, gekk að mér og vitnaði um Jesú með Jóhannesar guðspjallið í vasaútgáfu nýja testamentisins.  Hann talaði norsku og þetta var svolítið áhugavert að staldra við og hlusta á Norsarann.  Eftir smá spjall, dró ég mitt testamenti upp úr brjóstvasanum líka. Þetta hressti strákinn við sem vitnaði fyrir mig og hann entist lengivið að ræða um Jesú og bauð mér síðan að koma um kvöldið í Bústaðarkirkju þar sem þeir héldu úti tónleika.  Ég var tregur til en þáði að lokum.  Um kvöldið ákvað ég nú samt að gleyma þessu.  Hrista þetta af mér og fara á bíó.  Ég ræddi við Trausta bróðir, sem þegar átti lifandi trú, um þennan dreng niður í bæ sem bauð mér á tónleika í þjóðkirkjunni sem var við Bústaðarveg en við bjuggum rétt hjá.  Síðan hélt ég af stað í bíóhús snemma um kvöldið.

Ekki man ég neitt eftir bíómyndinni en þegar ég kom heim að þá sat þessi drengur, þessi norski trúboði sem las úr guðspjöllunum við Austurstræti í herberginu hans Trausta.  Bróðir minn hafði nefnilega skroppið á tónleikana og pilturinn þ.e.a.s. trúboðinn tók feil á okkur bræðrunum þar.  Þetta endaði því þannig að það nægði ekki þessum pilt að boða mér trú við á Austurstræti.  Ég var líka tekin í bakaríið á mínu heimili, heima í herbergi bróðir míns og vitnað var stöðugt og lengi.  Varnir mínar við að leyfa ekki Jesú að koma inn í hjarta mitt var enn til staðar og ég varði mig stöðugt.  Ég neitaði stöðugt en trúboðinn gafst ekki upp.  Hann lét mig meiri segja færa rök fyrir því af hverju Jesús var ekki nógu góður fyrir mig.  Þegar trúboðspilturinn fór um miðnætti og maður tók á sig svefn þar sem að ég átti eftir að taka flugið snemma um morgunn til Noregs að þá gerðist undrið.  Ég tók á móti Jesú upp úr miðjum svefni.  Ég bankaði hjá Trausta í herbergi hans og viti menn, hann var á bæn.  Hann hafi haft mig í bænum sínum um nóttina. 

  Andi Guðs vakti mig og ég tók á móti Jesú í hjarta mitt.

  Ég trúi því að Drottinn vann sitt verk á sinn sérstaka hátt í þessu tilviki sem öðru sem hann er iðinn við á hverjum einasta degi.


Með shalom kveðju, Hörður.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband